Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for september, 2012

Það var athyglisverð grein í danska blaðinu Information um helgina (22.-23.sept. 2012) undir yfirskriftinn „Den økonomiske vækst er en undtagelse“. Þar kemur fram að í sögulegu samhengi er tími hagvaxtar undanfarin 100 ár frábrugðin öðrum sögulegum tíma. Þannig hefur rannsókn leitt i ljós að árlegu hagvöxtur á heimsvísu frá fæðingu Krists til 1822 var á bilinu 0 (núll %) til 0,22 %. Í Vestur-Evrópu hófst hávaxtaskeið árið 1000 sem stóð fram til 1820. En á þessu tímabili var árlegur vöxtur aðeins um 0,34%. Það var fyrst með iðnbyltingunni að hagkerfið fór að vaxa um tvö til þrjú prósent á ári, eða þaðan af meira. Ef ég man rétt þrettánfaldaðist þjóðarframleiðsla á mann á Íslandi á síðustu öld.

En verður hagvöxtur í framtíðinni meira í takt við síðustu 200 ár eða líkist hann meir því sem gerðist þúsund árina þar á undan. Hagtölur benda til þess að sú framleiðniaukning sem fylgdi iðbyltingunni og tækniframförum í kjölfar hennar sé komin að endamörkun á vesturlöndum. Meiri framleiðni og aðgangur að ódýrum náttúruauðlindum er forsenda mikils og örs hagvaxtar. Margt bendir til þess að álagið á auðlindir sé komið á það stig að það geti takmarkað hagvöxt. Vísbendinga um það er að verð á hárefni hefur tekið að hækka undanfarin ár, en það hafði verið fallandi marga áratugi þar á undan.

Framvinda og stöðuleiki í vestrænum samfélögum hefur byggst á því að meira sé til skiptana með hverju árinu sem líður. Öllum grundvallar nauðsynum hefur fyrir löngu verið fullnægt fyrir fólk flest í okkar heimshluta. Vöxturinn hefur því fyrst og fremst farið í að auka velstand; neyta og eignast meira og meira.

Stjórnmálin hvert sem litið er beinast mikið að því að búa í haginn fyrir hagvöxt, og í vaxandi mæli er talað um grænan hagvöxt svona til að taka tillit til umhverfisins. Hvað ef hagkerfin hætta að vaxa? Atvinnuleysi, uppþot og óhamingja! Eða þurufm við að endurskipuleggja samfélagið þannig að allt sé í blóma og hamingju þó það vaxi lítið sem ekki neitt. Geta stjórnmálin tekið á því viðfangsefni, eða verður áfram byggt á draumi um sífellt stækkandi köku á alsnægtaborðinu á vesturlöndum?

 

Read Full Post »

Í bók sinni „Hernaðurinn gegn landinu, Þjórsárver“ skrifar Guðmundur Páll „Umsjón með Íslandi og náttúruauðæfunum þess er ákaflega vandasöm.“ og einning „Mennirnir eiga ekki auðvelt með að átta sig á tímanum, sérstaklega ekki þar sem jarðsagan er annars vegar enda veiðimannsheilinn einkum bundin við það sem blasir við hverju sinni“. Hann gerði sér ljóst að það eru ekki til auðveld svör við spurningunni um það hvernig lítil þjóð á að stjórna náttúrurauðæfum sínum. Forsenda góðrar sambúðar þjóðarinnar við landið er að fljótfærni og græðgi víki fyrir þekkingu, varfærni og hógværð.

Veiðimannsheilinn er bæði blessun þjóðarinnar og böl. Þegar ein bráð hefur verið felld er farið að leita að þeirri næstu. Menn veita ekki öðrum tækifærum nægjanlega gaum en fiskinum í sjónum og fallvötnum sem tækifæri til að sækja skjótfengan arð, og sem aflvaka framþróunar. Sveitarfélög, verkfræðistofur, verkalýðsfélög, svör samtaka atvinnulífsins voru öll á sömu bókina lærð; virkjun jarðvarma og fallvatna er ávísun á hagvöxt og atvinnutækifæri. Guðmundur Páll hefur átt ríkan þátt í að breyta þessum hugsanahætti.

Á síðustu öld voru Íslendingar að fóta sig úr fátækt inn í samfélag allsnægta þar sem leitin að efnislegri velsæld tók við af öflun nauðsynlegs lífsviðurværis. Það varð til samfélag sem hafði efni á að staldra við og ráðstafa náttúrauðlindum sínum með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Guðmundur Páll vildi að þjóðin ígrundaði þetta og til þess skrifaði hann sínar góðu bækur.

Guðmundur Páll taldi að samfélagið væri undirlagt óseðjandi athafnafíkn sem m.a. hefði leitt af sér illa ígrundaða stóriðjustefnu sem krefðist endalausra og óbætanlegra fórna. Hann lagði sig allan fram um að venja þjóðin af þessum ósið sem hann taldi vera að spilla mörgu af því vermætasta í landinu. Hann lýsti þessum verðmætum og sýndi þau í bókum sínum og erindum og opnaði augu landsmanna. Hann var sannur baráttumaður og einn einlægasti og öflugasti talsmaður náttúruverndar sem þjóðin hefur átt. Ást hans á landinu og virðing hans fyrir þeim öflum sem móta landið voru engin takmörk sett.

Í bókinni Þjórsárver segir hann: „Íslendingar verða að gera upp við sig hvort stórfelld náttúruspjöll í þágu áliðnaðar verði göfugasta framlag Íslendinga til heimsbyggðarinnar og best til þess fallinn að varðveita arfleifð sem er hluti af sjálfsmynd hvers Íslendings og ber hróður landsins um allan heim.“ Þjóðin hefur enn ekki gert þetta upp við sig. En starf Guðmundar Páls hefur átt ríkan þátt í því að sífellt fleiri Íslendingar vilja fremur verðveita náttúruarfinn en að sækja skjótfenginn virkjanagróða.

Sem framkvæmdastjóri Landverndar 1999 til 2006 átti ég samskipti við Guðmund Pál. Það voru góð kynni. Hann sótti viðburði sem Landvernd stóð að og lagði gott til málanna. Hann var uppspretta vel rökstuddra hugmynda um náttúruvernd og það var lagt við hlustir þegar hann talaði. Hann var fyrirmynd vegna þekkingar, þrautseigju, baráttukrafts, og hugmyndaauðgi, og blés baráttuanda í brjóst náttúruverndarfólks.

Það er skarð fyrir skildi við fráfall Guðmundar Páls náttúrufræðings. Blessuð sé minning hans.

Read Full Post »